Þjónustan

Stofnun félagsins
Okkar helsta markmið með stofnun félagsins er að auka þjónustu og bjóða upp á nýjan valkost fyrir fólk með fötlun, en sambærilega þjónustu er ekki að finna á Suðurlandi. Þjónustunni er ætlað að vera heildstæð og persónuleg auk þess að vera aðlöguð að þörfum hvers og eins og veita notandanum tækifæri til þjóðfélagsþátttöku á jafnréttisgrundvelli.
Við erum lítið og persónulegt fyrirtæki sem hefur það að markmiði að þjónusta hvern og einn vel, umfram það að vaxa hratt.

Hámarka gæði þjónustunnar
Við ráðum aðstoðarmenn til NPA Seturs Suðurlands, ekki til hvers notanda fyrir sig, og berum fulla vinnuveitendaábyrgð gagnvart þeim. Við munum leitast við að para saman notendur og aðstoðarmenn þannig að það henti notandanum sem best, jafnvel geta aðstoðarmenn og notendur verið paraðir saman eftir sérstökum verkefnum. Með þessu fyrirkomulagi viljum við leitast við að hámarka gæði aðstoðarinnar og lágmarka starfsmannaveltu. Hver aðstoðarmaður getur því samkvæmt þessu komið að aðstoð við fleiri en einn notanda. Aðstoðin sem notandinn fær er alltaf skipulögð í samstarfi við hann sjálfan og/eða persónulegan talsmann eða aðstoðarverkstjórnanda hans og mikilvægt að traust samband myndist milli notandans og aðstoðarmanna hans.

Þjónusta í boði
Þjónusta NPA Seturs Suðurlands er tvíþætt; umsýsla með NPA samningum og ráðgjöf um málefni fatlaðra og NPA samninga og er frekar fjallað um hvern þátt hér að neðan.

Umsýsla

NPA Setur Suðurlands hefur starfsleyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar til að fara með umsýslu NPA samninga á Suðurlandi og getur því farið með umsýslu slíkra samninga sem og beingreiðslusamninga sem gerðir hafa verið við lögheimilissveitarfélag. Forsenda þess að NPA Setur Suðurlands geti farið með umsýslu NPA samninga þarf að liggja fyrir einstaklingssamningur um NPA sem byggir á samkomulagi um úthlutun vinnustunda, hvoru tveggja gert við lögheimilissveitarfélag. Í framhaldinu getur NPA Setur Suðurlands gengið frá samstarfssamningi um framkvæmd á notendastýrðri persónulegri aðstoð. Sá samningur er gerður við Bergrisann bs. sem er byggðarsamlag um þjónustu við einstaklinga sem búa við fötlun á Suðurlandi.
Einnig aðstoðum við eftir þörfum þá sem hafa áhuga á að sækja um NPA samning.

Óskir þú eftir frekari upplýsingum varðandi umsýslu getur þú sent okkur erindi með því að ýta á hnappinn hér að neðan.

Ráðgjöf

Stjórnendur NPA Seturs Suðurlands hafa áratuga reynslu af málefnum fatlaðra auk þess að hafa farið með umsýslu NPA samninga frá lögleiðingu þeirra. Við höfum því kynnt okkur vel allt það sem kemur að samningunum og þeim ramma sem umsýsluaðilum er gert að starfa eftir. Við getum því veitt nokkuð víðtæka ráðgjöf; almennt um málefni fatlaðra, til þeirra sem hafa nú þegar gert samninga, til þeirra sem hafa hug á að sækja um samninga og til þeirra sem hafa kosið að sjá um umsýslu sinna samninga sjálfir og þarfnast aðstoðar með úrlausn sinna mála.

Óskir þú eftir frekari upplýsingum varðandi ráðgjöf, getur þú sent okkur erindi með því að ýta á hnappinn hér að neðan.